Björgunarfélagið Eyvindur á Flúðum hefur síðan um mitt ár 2011 verið með starfandi vettvangshjálparhóp. Tilgangur hópsins er að bregðast við alvarlegum veikindum eða slysum í uppsveitum Árnessýslu í samstarfi við sjúkraflutninga HSu á Selfossi og Lögregluna í Árnessýslu.
Upphafið
Árið 2003 var farið í rýningu á starfsemi Björgunarfélagsins Eyvindi og endurskipulagningu á tækjaflota félagsins. Hlutirnir voru metnir svo að Ford Econoline bifreið björgunarfélagsins gæti nýst sem sjúkraflutningstæki í ófærð og á fjöllum í samstarfi við starfandi sjúkraflutninga í sýslunni. Var bílnum breytt í samræmi við þær hugmyndir og sett í hann súrefni og festingar fyrir sjúkrabörur, sambærilegar og eru í sjúkrabílum. Þetta var hannað þannig að auðvelt væri að taka úr honum þennan búnað og breyta honum í fólksflutningstæki á sem skemmstum tíma.
Menntun
Það var ekki fyrr en sjúkraflutningar fóru frá lögreglunni í Árnessýslu til HSu að talið var raunhæft að fara að vinna að þeirri hugmynd að stofna vettvangshjálparhóp á Flúðum. Hann myndi vinna í nánu samstarfi við sjúkraflutninga HSu og var sett upp krafa um að það væru að lágmarki 3 menntaðir í vettvangshjálp í óbyggðum (Wilderness first responder) í hópnum svo hægt yrði að stofna hann. Árið 2008 byrjaði björgunarfélagið Eyvindur að mennta fólk með það að markmiði að koma hópnum af stað. Árið 2011 varð það svo að veruleika að vettvangshjálparhópurinn var stofnaður en þá um vorið voru orðnir 6 menntaðir einstaklingar í vettvangshjálp í óbyggðum (WFR) og í hópinn var svo bætt hjúkrunarfræðingi , sjúkraliða og bílstjórum sem eru starfandi í björgunarfélaginu, alls 12 manns . Vettvangshjálparhópurinn er duglegur að ná sér í meiri þekkingu með því að sækja námskeið, fyrirlestra og einnig koma annað slagið sjúkraflutningsmenn og fara yfir ýmislegt sem er talið að þurfi að skerpa á. Þá má nefna að 3 úr vettvangshjálparhópnum hafa lokið EMT-B námi og einnig er hópurinn nokkuð duglegur að halda æfingar. Eru þá nýliðar og elstu krakkarnir úr unglingadeildinni Vindi fengnir til að leika sjúklingar og fá þau ansi góða reynslu af því að fara í gegnum verkefnin sem fylgja æfingunum.
Samningur
Í júní 2011 var undirritað samkomulag vegna fyrstu viðbragða í alvarlegum slysum eða veikindun. Samkomulag þetta er undirritað af Björgunarfélaginu Eyvindi Flúðum, Heilbrigðisstofnun Suðurlands (HSu), Lögreglunni í Árnessýslu og Árnesingadeild Rauða Kross Íslands.
Í samkomulagi þessu er farið yfir hlutverk og boðunarverkferla ásamt því hvernig fjarskipti eru höfð í aðgerðum. Vettvangshjálparhópurinn er undir læknisfræðilegri umsjón HSu í þeim tilfellum sem sjúkraflutningar eða lögregla boðar hópinn út. Við boðun eru það annað hvort sjúkraflutningar eða lögregla sem kalla út hópinn, hvort sem er í slys eða til aðstoðar lögreglu á vettvangi. Hópurinn er á boðunarskrá undir sjúkraflutningum HSu sem einfaldar útkall hjá neyðarlínu en ekki er notast við hefðbundið útkallsferli björgunarsveita. Árnesingadeild Rauða Kross Íslands útvegaði við undirritun samkomulagsins einstaklingstöskur með sjúkrabúnaði þar sem allir sem eru menntaðir fengu hver sína tösku. Það hefur reynst afar vel að hafa slíkan búnað við hendina og geta farið beint á vettvang á einkabíl og hafið grunnvinnu þangað til annar búnaður kemur á vettvang.
Sjúkrabílavaktir
Í samkomulaginu er þess getið að þeir sem eru í vettvanghjálparhópnum hafa möguleika á að taka sjúkrabílavaktir og hefur hver og einn kost á að vera allt að 24 tíma á ári á sjúkrabílavakt. Það er gert til að hópurinn geti farið yfir búnað og uppbyggingu á sjúkrabílunum, kynnist sjúkraflutningsmönnum og taki þátt í útköllum með þeim. Er þetta án efa mjög mikilvægt fyrir vettvangshjálparhópinn og klárlega lærdómsríkt og gerir hópinn betur búinn undir að takast á við verkefnin sem hann fer í.
Útköll og þróun þeirra
Þetta byrjaði rólega og gerðu menn sér grein fyrir að það myndi taka þó nokkurn tíma að slípa verkefnið til. Það að gera sjúkraflutningsmenn og neyðarlínu meðvituð um hópinn og átta sig á hvenær væri þörf á honum og eins hversu langa leið hópurinn gæti farið svo hann myndi nýtast sem skyldi á vettvangi, áður en aðrir viðbragðsaðilar koma á vettvang. Með árunum hefur útköllum fjölgað frá því að vera 1-2 á ári til að byrja með í það að fara í 18 árið 2013. Á Flúðum og nágrenni er mikill mannfjöldi yfir sumartímann t.d um verslunarmannahelgar og hefur hópurinn verið með bakvakt á svæðinu alla helgina og hefur það reynst mjög vel. Vetvanghjálparhópurinn hefur styrkt bráðaþjónustu í uppsveitum Árnessýslu og reynst sjúkraflutningum mikilvægur liðstyrkur.
Búnaður
Miklu hefur verið bætt í skyndihjálparbúnaðinn hjá björgunarfélaginu Eyvindi á síðustu árum og hefur félagið ýmist keypt búnaðinn sjálft eða fengið hann að gjöf frá einstaklingum og Kvenfélagi Hrunamannahrepps. Nokkuð sambærilegur búnaður er í bílunum þremur sem björgunarfélagið á og nýtist hann í aðgerðum. Reynt er að hafa töskur og súrefnisbúnað svipað upp settan en þó er meira af sértækum búnaði í Vindi 1 sem nýtist frekar til stuðnings og við flutning á sjúklingum. Í húsinu er sérstakt skyndihjálparherbergi þar sem æfingabúnaður og nýr búnaður er geymdur, þar er líka geymt hjartastuðtæki og lyf til að bregðast við asma og ofnæmistilfellum. Þessu til viðbótar má nefna að þegar sjúklingi er komið í sjúkrabíl með búnað frá björgunarfélaginu, er samskonar búnaður og notaður var tekinn úr sjúkrabílnum áður en hann fer eða við fyrsta tækifæri. Þannig er vettvangshjálparhópurinn alltaf með allt klárt fyrir næsta útkall.
Vindur 3
Þegar björgunarsveit fer í svona verkefni þá þarf hún eðlilega að vera í stöðugri sjálfsskoðun og meta hlutina út frá verkefnum og reynslu sem safnast upp. Sumarið 2012 var það metið svo að það þyrfti að skoða heppilegri bíl til að takast á við þau útköll sem fylgdi vettvangshópnum. Þegar það þarf að bregðast við slysum eða alvarlegum veikindum þá skiptir tími öllu og ekki forsvaranlegt að fara í forgangskstur á mikið breyttum jeppum. Varð það úr að björgunarfélagið Eyvindur keypti fjórhjóladrifinn Subaru sem í var settur allur helsti fjarskiptabúnaður, leiðsögutæki, búnaður fyrir forgangsakstur og sjúkrabúnaður. Reynslan hefur verið mjög góð og mikið öryggi að fara í útköll á sérútbúnum fólksbíl í forgangsakstur, jepparnir koma svo á eftir með meiri búnar og mannskap ef með þarf.
Börgunarfélagið Eyvindur
Breytt staða, áhugi, fagmennska
Engum sem starfað hefur lengi með björgunarfélaginu Eyvindi hefði órað fyrir hversu mikið það myndi breyta starfinu að fara úr hefðbundnum björgunarsveitarverkefnum í að vinna með atvinnumönnum að mjög aðkallandi og krefjandi útköllum. Björgunarsveitarfólk sem eingöngu hafði verið með skyndihjálp 1-2 fór í gegnum WFR og sumir fóru enn lengra í menntunarmálum og breytir það eðlilega mikið stöðunni hjá björgunarfélaginu. Haldnar eru æfingar með nýliðum og unglingadeildinni og kveikir það áhuga hjá þeim yngri og setja margir sér stefnu og markmið að taka þátt í þessu verkefni. Björgunarfélagið Eyvindur er að störfum í hinum ýmsu verkefnum en getur einnig farið í skyndihjálparverkefni af fagmennsku og öryggi. Öllum má vera ljóst að verkefni sem þetta styrkir ekki bara samfélagið og eykur öryggi íbúa þess heldur styrkir þetta í leiðinni innra starf björgunarfélagsins og ímynd þess.